17. september 2021
Grænir iðngarðar á Íslandi
Verðmæt tækifæri eru fólgin í uppsetningu grænna iðngarða á Íslandi. Undanfarna mánuði hafa aðilar úr ýmsum áttum unnið að kortlagningu þeirra og hvar helstu sóknarfærin liggja. Hringrásarhagkerfið leikur þar mikilvægt hlutverk en að vinnunni stóðu Íslandsstofa, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið, Landsvirkjun og Norðurþing. Niðurstöður vinnunnar eru nú aðgengilegar á vefnum.
Sjá nánar hér:
Verkefnið var kynnt í Hörpu í beinni útsendingu í vikunni og má horfa á upptöku frá henni hér að neðan.
„Við sjáum samkeppnislönd okkar nálgast beinar erlendar fjárfestingar með skilvirkari hætti. Það efni sem hefur verið tekið saman um græna iðngarða gefur okkur margvísleg tækifæri til að laða grænar fjárfestingar til landsins og vinna hlutina á nýjan hátt,” segir Karl Guðmundsson, forstöðumaður útflutnings og fjárfestinga hjá Íslandsstofu.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra segir að vinnan sé mikilvægur áfangi í uppbyggingu grænna iðngarða á Íslandi.
„Þar liggja gríðarleg tækifæri og við megum ekki vera eftirbátar annarra landa ef við ætlum að laða slík fjárfestingarverkefni til Íslands. Við þurfum að einfalda ferla, án þess að slá af kröfum, og taka betur á móti slíkum verkefnum með auknum fyrirsjáanleika, skýrum svörum og einföldu skipulagi. Starfshópur helstu ráðuneyta og stofnana fær nú það hlutverk að styðja enn frekar við næstu skref, enda snertir þetta mjög marga fleti stjórnsýslunnar.“
Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, segir að Íslendingar veiti iðnfyrirtækjum góða þjónustu.
„Núna þurfum við að taka næsta skref, endurskoða og bæta innviði svo ný verkefni vaxi og dafni. Hér á landi sjáum við mikla möguleika skapast á jarðvarma- og iðnaðarsvæðum. Við þurfum að tryggja að hugvit og nýsköpun fái þá aðhlynningu sem þarf til að nýta orku- og efnisstrauma og verða þannig hluti af hringrásarhagkerfinu.“
Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings segir að framtíðarhorfur byggða á borð við Húsavík á því hversu mikinn fjölbreytileika næst að byggja upp í atvinnulífi nærumhverfisins, og að nýsköpun og atvinnuþróun eflist.
„Það er af þeim sökum sem verkefni eins og Grænir iðngarðar sem er fyrir okkur í Norðurþingi mikilvægt skref til þess að hámarka líkur á því að væntingar íbúa okkar um velsæld til framtíðar rætist.“
Á myndinni eru frá vinstri, Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar og Karl Guðmundsson, forstöðumaður útflutnings og fjárfestinga hjá Íslandsstofu.