13. júní 2023

Ísland kynnir nýtingu jarðhita á Our Climate Future í Berlín

Ljósmynd

Íslendingar eru með sérstöðu þegar kemur að nýtingu jarðhita og geta aðrar þjóðir nýtt sér reynslu okkar og sérþekkingu.

Grænvangur, Íslandsstofa og sendiráð Íslands í Berlín stóðu fyrir viðburðinum Our Climate Future í Felleshus í Berlín þann 12. júní þar sem umfjöllunarefnið var nýting jarðvarma. Um 180 manns mættu á staðinn en auk þess fylgdust fleiri með á vefnum. Gestir samanstóðu af sérfræðingum, aðilum úr þýsku atvinnulífi og helstu hagsmunaaðilum.

Robert Habeck, efnahags- og loftslagsmálaráðherra og vara-kanslara Þýskalands hélt erindi á fundinum. Fyrir Íslands hönd komu fram Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra, María Erla Marelsdóttir, sendiherra Íslands í Berlín, Pétur Þ. Óskarsson framkvæmdastjóri Íslandsstofu og Nótt Thorberg, forstöðumaður Grænvangs. Þá tóku hinir ýmsu sérfræðingar þátt í pallborðsumræðum. Sjá dagskrá

Í ávarpi sínu kom Guðlaugur Þór m.a. inn á sérstöðu okkar Íslendinga þegar kemur að nýtingu jarðhita og hvernig aðrar þjóðir geti nýtt sér okkar reynslu og sérþekkingu. Mikill vilji sé hjá íslenskum stjórnvöldum og fyrirtækjum að vinna með öðrum þjóðum sem hingað til hafa ekki litið til nýtingar á jarðhita. Víða um Þýskaland sé að finna lághitasvæði og stór hluti Þýskalands geti nýtt sér þennan græna og endurnýjanlega orkukost til húshitunar.

„Samstarf og samvinna eru lykilþættir þegar kemur að því að leysa þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir nú. Hvort sem litið er til orkuöryggis eða áskorana í loftslagsmálum. Í þessu samhengi er gott að Ísland og Þýskaland eiga langa og góða sögu af samstarfi og þjóðirnar tengdar sterkum böndum. Ég vonast til þess að við getum byggt á þeim góða grunni, styrkt samband ríkjanna og unnið enn meira saman þegar kemur að því að afla grænnar orku og tryggja loftslagsvæna framtíð saman,“ sagði Guðlaugur í ávarpi sínu.

Í kjölfarið átti ráðherra tvíhliða fund með Robert Habeck, efnahags- og loftslagsmálaráðherra og vara-kanslara Þýskalands.

Þetta er í annað sinn sem Our Climate Future fer fram en á síðasta ári var sambærilegur viðburður haldinn í Washington. HS Orka, Landsvirkjun og ON voru styrktaraðilar að viðburðunum.

rich text image

Frá vinstri: Sandra Rán Ásgrímsdóttir, Lea Gestsdóttir Gayet, Guðlaugur Þór Þórðarson, Pétur Þ. Óskarsson, Einar H. Tómasson, María Erla Marelsdóttir, Nótt Thorberg, Árni Alvar Arason og Ruth Bobrich.

Ísland kynnir nýtingu jarðhita á Our Climate Future í Berlín

Sjá allar fréttir