10. mars 2021
Vísindaþorpið í Vatnsmýrinni kynnt á lykilmörkuðum
„Það er spennandi verkefni að markaðssetja Vatnsmýrina sem ákjósanlegan stað fyrir þekkingaruppbyggingu framtíðar, " segir Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu.
Vísindaþorpið í Vatnsmýri verður markaðssett alþjóðlega undir heitinu Reykjavík Science City í samstarfi við Íslandsstofu. Skrifað var undir samning um það í dag. Gera á hugvit, nýsköpun og tækni að burðarásum verðmætasköpunar og stuðla að því að Ísland verði eftirsóttur staður til rannsókna, þróunar og fjárfestinga. Meðal annars verður horft til tækifæra sem tengjast líftækni og heilsutengdri tækni, auk þess sem laða á til landsins erlend fyrirtæki og sérfræðinga.
„Það er spennandi verkefni að markaðssetja Vatnsmýrina sem ákjósanlegan stað fyrir þekkingaruppbyggingu framtíðar. Víðs vegar á Norðurlöndunum, og víðar, hefur slík vinna skilað miklum árangri og tækifærum fyrir samfélagið. Það er eitt af markmiðum útflutningsstefnu stjórnvalda að stórauka hluta þekkingariðnaðarins í öflun gjaldeyris og það er ánægjulegt að sjá þá stefnu færða í verk með þessum hætti,” segir Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu.
Samstarfsvettvangur Vísindaþorpsins í Vatnsmýri var jafnframt stofnaður í dag. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, Páll Matthíasson, forstjóri Landsspítalans og Sigurður Magnús Garðarsson, formaður stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands skrifuðu undir samninginn í Norræna húsinu.
Framtíðarsýn Vísindaþorpsins sem samþykkt var árið 2013 er að í Vatnsmýri byggist upp fjölbreytt, hvetjandi, lifandi og þétt borgarbyggð. Hún á að samanstanda af háskólum, háskólasjúkrahúsi, þekkingarfyrirtækjum, vísindagörðum, frumkvöðlasetrum, íbúðum fyrir almenning og stúdenta, þjónustu, verslun, afþreyingu, menningu og grunn- og leikskólum í nánum tengslum við náttúru, útivist og almenningsrými.