11. ágúst 2021
Skapandi Íslandi ýtt úr vör
Verkefninu verða lagðar til níutíu milljónir króna árlega til og með ársins 2025 í fyrsta áfanga þess. Íslandsstofa leggur til helming þeirrar fjárhæðar en mennta- og menningarmálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið hinn helminginn. Myndin var tekin við undirritun samkomulagsins.
Markaðsverkefninu Skapandi Ísland hefur verið ýtt úr vör. Verkefninu er ætlað að efla vitund um íslenskar listir og skapandi greinar á erlendum mörkuðum, auka þekkingu alþjóðlegs fagfólks á listum og skapandi greinum hér á landi og styðja við útflutning íslenskra listamanna og hins skapandi geira.
Skapandi Ísland er samstarfsverkefni Íslandsstofu og stjórnvalda og unnið í samstarfi við miðstöðvar listgreina og fagfólks innan greinanna. Markaðsráð verður skipað sem verður til ráðgjafar um verkefnið í heild sinni.
Verkefninu verða lagðar til níutíu milljónir króna árlega til og með ársins 2025 í fyrsta áfanga þess. Íslandsstofa leggur til helming þeirrar fjárhæðar en mennta- og menningarmálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið hinn helminginn. Alls nemur umfangið um 450 milljónum króna. Auk fjárframlags mun Íslandsstofa standa straum af kostnaði af því að hýsa og sjá um framkvæmd verkefnisins, leggja því til starfsfólk og stoðþjónustu. Utanríkisráðuneytið mun leggja til húsnæði á vegum utanríkisþjónustunnar fyrir ýmsa viðburði sem haldnir verða erlendis og standa straum af kostnaði við vinnu starfsfólks sendiskrifstofa við undirbúning og framkvæmd þeirra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra , Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, og Pétur Þ. Óskarsson framkvæmdarstjóri Íslandsstofu undirrituðu samning um verkefnið í Reykjanesbæ að loknum fundi ríkisstjórnar Íslands 10. ágúst 2021.
Skapandi Ísland mun auka slagkraft í kynningarstarfi erlendis og opna tækifæri til að takast á við stærri verkefni en áður m.a. með því að nýta fjármagn betur. Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, segir listir, menningu og skapandi greinar meðal mikilvægustu þátta í farsælum samfélögum.
„Þær hafa gildi í sjálfu sér, en skipta einnig miklu máli fyrir ímynd og viðhorf til lands og þjóðar, til Íslands sem áfangastaðar en ekki síst sem öflugrar útflutningsgreinar. Það er spennandi að sækja fram til að nýta þau tækifæri sem eru til staðar í fjölbreyttum listgreinum meðal skapandi fólks á Íslandi, að auka útflutningstekjur auk þess að auðga mannlífið.“
Með Skapandi Íslandi verður blásið til sóknar utan landsteinanna til að kynna íslenska tónlist, myndlist, bókmenntir, kvikmyndir, sviðslistir og hönnun.