29. janúar 2021

Let it Out herferðin vinnur til Digiday verðlauna

Markaðsherferðin Let It Out vann til Digiday verðlauna í flokknum besta auglýsingin þann 28. janúar.

Markaðsherferðin Let It Out sem keyrð var undir merkjum Inspired by Iceland síðastliðið sumar, vann til Digiday verðlauna þann 28. janúar. Bandaríski fagmiðillinn Digiday verðlaunar árlega markaðsstarf fyrirtækja fyrir bæði hugmyndaauðgi og árangur og eru verðlaunin eftirsótt meðal fagfólks í markaðsgeiranum. 

Myndbandið sem hvatti fólk til þátttöku í Let it Out herferðinni vann í flokknum besta auglýsingin. Það voru M&C Saatchi og Peel auglýsingastofa sem unnu handrit og hugmyndavinnu að myndbandinu, en framleiðslufyrirtækið Skot sá um upptökur og framleiðslu. Leikstjórn var í höndum þeirra Samúels Bjarka Péturssonar og Gunnars Páls Ólafssonar, en Úlfur Eldjárn samdi tónlistina.

Let it out herferðin fór af stað um miðjan júlí þegar tilvonandi ferðamönnum var boðið að losa um covid-tengda streitu með því að taka upp öskur gegnum síma eða tölvu og fylgjast með því hljóma í íslenskri náttúru gegnum vefmyndavél. Boðið var upp á að fylgjast með öskrinu hljóma í ólíkum landshlutum þar sem sjö hátölurum var komið fyrir utan alfaraleiðar og fengu notendur svo myndbandsupptöku af öskrinu sínu.

Annar áfangi herferðarinnar er nú í gangi, Joyscrolling, þar sem fólk er hvatt til þess að skruna sér til ánægju á vefnum www.joyscroll.com. Þar hefur verið komið fyrir 22,7 metrum af gleðigefandi efni frá Íslandi, sem hugsað er sem mótvægi gegn stanslausum straumi neikvæðra frétta undanfarið.


Sjá allar fréttir