30. nóvember 2021

Controlant hlýtur Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2021 og Baltasar heiðraður

Fyrirtækið Controlant hlaut í dag Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2021. Við sama tilefni var Baltasar Kormákur heiðraður fyrir eftirtektarverð störf á erlendri grund. Á myndinni eru forseti Íslands, Gísli Herjólfsson, forstjóri Controlant og Hildur Árnadóttir, formaður stjórnar Íslandsstofu.

Fyrirtækið Controlant hlaut í dag Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2021 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Við sama tilefni var Baltasar Kormákur, kvikmyndaframleiðandi og leikstjóri, heiðraður fyrir eftirtektarverð störf á erlendri grund.

Starfsemi Controlant komin til nærri 200 landa

Hug- og vélbúnaður Controlant tryggir gæði viðkvæmra vara í flutningi og dregur úr sóun á lyfjum og matvælum. Controlant gefur framleiðendum lyfja og matvæla mikilvægar rauntímaupplýsingar um hitastig, raka og staðsetningu sem fást með nettengdum gagnaritum. Áralöng fjárfesting í tækniþróunarstarfi er að skila sér um þessar mundir í hröðum vexti tekna og nær starfsemin til næstum 200 landa.

Viðskiptavinir fyrirtækisins eru lyfja- matvæla- og flutningsfyrirtæki um allan heim. Flestir koma þó úr röðum lyfjaiðnaðarins, enda er stærsta hlutverkið í dag að vakta dreifingu á bóluefni gegn Covid-19 og tryggja þannig að bóluefnið komist á öruggan hátt til heimsbyggðarinnar, í samstarfi við mörg af stærstu lyfjafyrirtækjum heims.

Vöktun allan sólarhringinn stuðlar að því að hægt er að grípa inn í, forða verðmætri vöru frá skemmdum og koma þannig í veg fyrir sóun. Þetta hefur gengið vel og hefur árangurinn í dreifingu bóluefnis Pfizer vakið mikla athygli í lyfjageiranum en 99,998% bóluefnisins komst heilt á húfi á áfangastað. Nú þegar hefur fyrirtækið vaktað um tvo milljarða bóluefnaskammta sem hafa verið sendir til nærri 200 landa.

Fjárfesting í tækniþróun hefur skilað sér í hröðum vexti hjá Controlant. Fjöldi starfsmanna hefur margfaldast á skömmum tíma. Í lok ársins 2019 störfuðu rétt rúmlega 50 manns hjá fyrirtækinu, en í árslok 2021 verða starfsmenn orðnir 350. Langstærsti hlutinn starfar á Íslandi en einnig er fyrirtækið með starfsemi í Bandaríkjunum, Írlandi, Bretlandi, Hollandi, Póllandi, Þýskalandi og Sviss. Ársveltan fyrir 2019 nam tæplega 400 milljónum króna. Má áætla að veltan fyrir árið 2021 verði á bilinu 7 til 8 milljarðar króna.

Controlant hefur skipað sér mikilvægan sess á heimsvísu í því risastóra verkefni og áskorunum sem Covid-19 felur í sér. Fram undan hjá fyrirtækinu er áframhaldandi uppbyggingarstarf á erlendum mörkuðum og liggja tækifærin víða, til að mynda innan matvælageirans.

Baltasar Kormákur hlýtur heiðursviðurkenningu

Samhliða afhendingu Útflutningsverðlaunanna var Baltasar Kormáki, kvikmyndaframleiðanda, leikstjóra, leikara, með meiru, veitt heiðursviðurkenning fyrir eftirtektarverð störf á erlendri grundu. Meðal fyrri verðlaunahafa eru m.a. frú Vigdís Finnbogadóttir, Helgi Tómasson listdansstjóri og Björk.

Baltasar útskrifaðist sem leikari frá Listaháskóla Íslands árið 1990 og hóf þá störf hjá Þjóðleikhúsinu þar sem hann lék í og leikstýrði sýningum næstu árin. Snemma á ferlinum hóf hann að framleiða og leikstýra eigin sjálfstæðum kvikmyndaverkefnum. 101 Reykjavík kom út árið 2000 og var fyrsta verkefnið sem kom honum á kortið erlendis, en kvikmyndin vann til verðlauna á hinum ýmsu kvikmyndahátíðum, auk þess að koma Baltasar á lista Variety yfir topp 10 leikstjóra til að fylgjast með.

Meðal kvikmynda sem hann hefur framleitt eru A Little Trip to Heaven, Mýrin, Brúðguminn, Djúpið og Eiðurinn sem hafa allar fengið mjög góðar viðtökur á Íslandi sem og erlendis. Þá hefur Baltasar leikstýrt og framleitt erlendar kvikmyndir, má þar nefna myndirnar Everest, Contraband og 2 Guns.

Baltasar byrjaði snemma að einbeita sér að framleiðslu, skrifum og leikstjórn kvikmynda. Hann stofnaði fyrirtækið Blueeyes Production árið 1999. Árið 2012 setti hann síðan á laggirnar framleiðslufyrirtækið RVK Studios og byrjaði að framleiða sjónvarpsþætti fyrir alþjóðamarkað. Fyrsta þáttaröðin af þremur í Ófærð kom út árið 2016 og fór í sýningu víða um heim. Árið 2020 framleiddi Baltasar þáttaröðina Kötlu í samstarfi við NETFLIX og frumsýnd var fyrr á þessu ári og voru þættirnir ofarlega á vinsældalista Netflix.

Baltasar er langt í frá hættur að setja mark sitt á kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð hér heima og heiman. Síðustu árin hefur hann tekið virkan þátt í uppbyggingu hins íslenska kvikmyndaþorps í Gufunesi í Reykjavík, meðal annars með opnun kvikmyndavers með þremur stúdíó-rýmum.

Um útflutningsverðlaunin

Tilgangurinn með veitingu Útflutningverðlaunanna er að vekja athygli á þjóðhagslegu mikilvægi gjaldeyrisöflunar og alþjóðlegra viðskipta og heiðra þá sem hafa náð sérstaklega góðum árangri í sölu og markaðssetningu á íslenskum vörum og þjónustu erlendis. Veiting verðlaunanna tekur mið af verðmætisaukningu útflutnings, hlutdeild útflutnings í heildarsölu, markaðssetningu á nýjum mörkuðum og fleiru.  

Útflutningsverðlaunin eru nú veitt í 33. sinn en þau voru fyrst afhent árið 1989. Meðal fyrirtækja er hlotið hafa verðlaunin í gegnum tíðina eru Marel, Nox Medical, Bláa lónið og Trefjar, og á síðasta ári hlaut DeCode verðlaunin.

Í úthlutunarnefndinni sátu að þessu sinni: Sif Gunnarsdóttir, frá embætti forseta Íslands, Gylfi Magnússon, frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Katrín Olga Jóhannesdóttir frá Viðskiptaráði, Þórunn Sveinbjörnsdóttir, frá Alþýðusambandi Íslands og Hildur Árnadóttir frá Íslandsstofu, en Íslandsstofa ber ábyrgð á kostnaði og framkvæmd við verðlaunaveitinguna.


Sjá allar fréttir